Hvað þarf til að setja upp vefsíðu?
Upplýsingar og efni fyrir vefsíðugerð
Fyrsta skrefið í uppsetningu á vefsíðu er að hafa upplýsingar eða efni til að setja inn á síðuna. T.d upplýsingar um fyrirtæki eða hugmynd að fyrirtæki sem þú átt eða hefur umsjón með. Ef þú ert listamaður þarftu upplýsingar um listina sem þú skapar. Efni um tónlist, ritverk, myndlist eða gjörninga. Ef þú ert hins vegar í forsvari fyrir stofnun, félagasamtök eða sveitarfélag sem þurfa að endurnýja eða setja upp nýja vefsíðu þarf að taka saman upplýsingar og efni um starfsemina. Við uppsetningu á vefsíðu verður ekki hjá því komist að taka saman upplýsingar sem eru notaðar til að kynna starfsemina. Efni í formi texta, mynda, hljóða, myndbanda eða af öðru formi sem hentar vefsíðu. Ef efnið eða upplýsingarnar eru ekki til staðar er nánast útilokað að setja upp vefsíðu.
Skipulag efnis
Ekki er skynsamlegt að setja efnið inn á vefsíðuna með einhverjum tilviljanakenndum hætti eða hrúga því inn í belg og biðu. Þess vegna er næsta skref að skipuleggja vefsíðugerð. Setja efnið þannig upp með skipulögðum hætti að gestir sem koma inn á síðuna skilji hvað þú ert að segja. Algengasta leiðin til að skipuleggja efni á vefsíðu er að setja upp veftré. Veftréð er listi yfir tengla vefsíðunnar og það efni sem tilheyrir hverjum tengli fyrir sig. Sem dæmi má nefna að ef um gistingu er að ræða gætu tenglarnir litið svona út: Forsíða | Gisting | Verðskrá | Staðsetning | – og auðvitað margt fleira. Fyrir hvern tengil er fínt að skrifa hálfa A4 síðu af efni og finna myndir sem henta. Þannig er hægt að búa til efni koll af kolli. Þetta er auðvelt að setja saman í Word , Excel eða Power Point eftir hentugleika. Þegar allt efnið er komið saman og komið á sinn stað á þeirri síðu sem tilheyrir tenglinum er efnið komið inn á síðuna. T.d. gæti tengilinn Verðskrá verið listi yfir herbergin og verð fyrir hvert herbergi fyrir sig. Þar mætti einnig setja inn upplýsingar um verð fyrir svefnpokapláss eða uppábúið rúm o.s.frv. Ekki væri verra að hafa myndir af herbergjunum. Með þessari vinnu er grunnur vefsíðunnar kominn ótrúlega langt.
Lén – .is eða .com
Ef þú ert að setja upp vefsíðu fyrir nýja starfsemi er lénið eitt af því fyrsta sem þú þarft að huga að. Lénið er það sem skilgreinir hvað vefsíðan heitir og hvernig á að finna hana, hvar hún á heima. Stundum er val á léni augljóst þegar verið er að setja upp vefsíðu fyrir starfsemi sem þegar hefur heiti. T.d. ef fyrirtækið heitir Matarvenjur væri rökréttast að athuga hvort lénið matarvenjur.is væri laust. Þegar búið er að tryggja það lén sem þú ætlar að nota getur þú hafist handa við að setja upp vefsíðu. Til þess að kaupa íslenskt lén þarf að fara inn á vefsíðuna isnic.is. Þar má nálgast allar upplýsingar um íslensk lén. Lén sem enda á .is. Fyrir Ísland er alltaf skynsamlegt og heppilegt að haf lén sem endar á .is. Ef þú hefur hug á að nota .com eða .net lén eða lén með öðrum endingum er yfirleitt auðvelt að kaupa slík lén ef þau eru á annað borð laus. Fjölmargir aðilar bjóða lén til sölu, eins og t.d. godaddy.com.
Hýsing – 3090 kr.- hjá okkur
Næsta skref er að sækja um hýsingu fyrir lénið. Hýsing er sá staður sem hýsir síðuna þannig að þegar einhver setur lénið inn í vafra, eins og t.d. matarvenjur.is, kallar hann á vefsíðuna og biður hana að koma í vafrann til sín. Margir aðilar bjóða hýsingu hér á landi og er verðið ansi misjafnt. Lægsta verð er kringum 1.000 krónur og hæsta verð er í kringum 15.000. Enginn sjáanlegur munur er á gæðum hvort sem greitt er kr. 1.000 eða 15.000. Okkar verð er 3090 kr